Heildsalan Ozon er fyrsta fyrirtækið hérlendis til að hefja innflutning á snyrtivörum sem innihalda virka efnið CBD, sem unnið er úr hampi. Framkvæmdarstjóri fyrirtækisins segist vona að innflutningur á fæðubótaefnum sem innihalda CBD verði gerður löglegur.
Sigurður Hólmar Jóhannesson, framkvæmdarstjóri Ozon, segist í samtali við mbl.is hafa kynnst CBD árið 2017, en dóttir hans er með sjaldgæfan taugasjúkdóm.
„Þá erum við að nota fæðubótaefni, olíu sem hún tekur inn og þá kynntumst við hampinum fyrir alvöru og sáum hvað þetta hefur gríðarlega flott áhrif á fólk. Uppfrá því hefur okkar langað til að kynna þetta fyrir almenningi og við höfum tekið eftir gríðarlegum áhuga hjá fólki. Síðan þá höfum við barist fyrir því ásamt fleiru góðu fólki að fá þetta löglegt,“ segir Sigurður.
Sigurður ræddi við Skessuhorn í nóvember um sölu snyrtivaranna og sagði þá nánar frá eiginleikum CBD. Hann segir fjölskylduna hafa prófað óteljandi lyf fyrir dóttur sína sem virkuðu ekki, en uppgötvað síðan hvaða áhrif CBD geti haft þegar þau kynntust því.
Ekkert THC í vörunum
„Við byrjuðum fyrr á árinu að selja hampte og hráhamp og ýmislegt annað sem mátti þá. Svo minnir mig að það hafi verið í október sem að Umhverfisstofnun tók þessa ákvörðun að leyfa snyrtivörurnar og þá tókum við þessa ákvörðun að flytja þær inn. Það eru svo fleiri vörur á leiðinni sem við erum að prófa núna. Salan gengur mjög vel og það er mikill áhugi. Fólk er svona að kynnast þessu, við erum bara spennt að halda áfram,“ segir Sigurður.
„Snyrtivörur falla undir umhverfisráðuneytið og Umhverfistofnun tók þá ákvörðun að leyfa CBD, svo lengi sem það er ekkert THC í vörnunum og að það sé skráð í snyrtivörugáttina hjá Evrópusambandinu,“ segir Sigurður, en THC er vímugjafinn sem finnst í kannabisplöntum.
„Það verður að uppfylla þessar kröfur og ef það er gert er ekkert því til fyrirstöðu að selja þessar vörur. Við bíðum bara spennt eftir því að geta farið að selja fæðubótaefni með CBD. Það kemur, ég held að það sé bara spurning um tíma,“ segir Sigurður og segist vona að þingsályktunartillaga þingmanna fimm þingflokka muni bera árangur.
Aðeins til tölu á „gráum markaði“
Hér á landi er CBD skilgreint sem innihaldsefni í lyfi og fellur því undir lyfjalög. Því er óheimilt að flytja efnið inn sem fæðubótarefni til einkanota. Þyrfti reglugerðar- eða lagabreytingar til þess að heimilt væri að selja CBD-vörur í almennri sölu og vilja þeir þingmenn sem standa að baki þingsályktunartillögunni að slíkar reglugerðar- eða lagabreytingar verði gerðar.
Sigurður segir að markaðurinn sé að kalla eftir því að innflutningur og almenn sala á fæðubótaefnum sem innihalda CBD verði gerð lögleg.
„Eins og staðan er núna er bara verið að selja svoleiðis á einhverjum gráum markaði sem er náttúrulega alls ekki nógu gott fyrir neinn,“ segir Sigurður.
Vímugjafinn THC hefur verið fjarlægður úr CBD vörunum sem Ozon flytur inn, en sem áður segir er THC vímugjafinn sem finnst í kannabisplöntunni.
Sigurður segir að vörurnar séu seldar á vefsíðunni hempliving.is, auk þess sem vörurnar eru komnar í sölu í Apóteki Vesturlands og von er á þeim í fleiri búðir á næstunni.