Um félagið

Hampfélagið eru samtök stofnuð til að fræða og miðla þeim ávinningi sem hlýst af nýtingu hamps fyrir betri og sjálfbærari framtíð.

Hampfélagið var stofnað í september árið 2019 af Þórunni Þórs Jónsdóttur, Gísla Ragnari Bjarnasyni og Sigurði Hólmari Jóhannessyni og skipa þau stjórn félagsins ásamt Loga Unnarsyni Jónssyni og Oddnýju Önnu Björnsdóttur. Bakgrunnur stjórnarmanna er ólíkur en saman mynda þau sterka heild og deila sameiginlegri hugsjón, þar sem eiginleikar allra nýtast til að vinna að markmiðum félagsins.

Fyrsta stóra verkefni Hampfélagsins var málþing sem bar heitið Hampur fyrir framtíðina og mun það nafn verða yfirskrift viðburða á vegum félagsins í framtíðinni. Markmið málþingsins var að skapa umræður og fræða samfélag okkar um fjölbreytta notkunarmöguleika hamps og mikilvægi þess að gera plöntunni hærra undir höfði en gert hefur verið síðustu áratugi. Málþingið var haldið á Grand Hótel Reykjavík og er óhætt að segja að undirtektir hafi verið framar vonum því salurinn yfirfylltist og þurfti stór hópur fólks að sitja á gangi fyrir framan salinn. Miklar umræður sköpuðust fyrir og eftir málþingið í fjölmiðlum og í samfélaginu öllu. Í framhaldinu var sett fram þingsályktunartillaga af Halldóru Mogensen, þingmanni Pírata sem ber heitið „CBD í almenna sölu“.

Lögmaður Hampfélagsins er Haukur Örn Birgisson, hrl. Hann hefur og mun aðstoða okkur í baráttunni eins og þörf krefur.

Hampfélagið mun halda áfram að kynna hampinn fyrir Alþingi, ríkisstjórn og ráðuneytum, öðrum hagsmunasamtökum, atvinnulífinu og almenningi með það að markmiði að hampur og allar afurðir hans verði lögleiddar á Íslandi og hann ræktaður og nýttur hér á landi eins og annars staðar. Við munum einnig halda áfram að halda úti Facebook síðu okkar, Hampfélagið og í gegnum hana svara þeim fjölmörgu fyrirspurnum sem berast úr ýmsum áttum.

Með opnun heimasíðu Hampfélagsins bjóðum við fólki að skrá sig í félagið og gerast „Hamparar“ og þannig hjálpa okkur að hampa þessari stórkostlegu plöntu sem hefur fylgt manninum frá örófi alda.

WordPress Appliance - Powered by TurnKey Linux