RUV.IS – Dönsuðu og reyktu kannabis við Brandenborgarhliðið

Nokkur hundruð komu saman við Brandenborgarhliðið í Berlín á miðnætti og reyktu kannabis, í tilefni þess að það er nú orðið löglegt í Þýskalandi. Það er þó aðeins löglegt til einkanota og má fólk rækta allt að þrjár plöntur heima hjá sér.

Kannabisáhugafólk fagnaði vel á miðnætti þegar nýju lögin tóku gildi. Nokkur hundruð komu saman við Brandenborgarhliðið í Berlín og dönsuðu og reyktu jónur.

Einn þeirra er Marco. Hann segir fólk hafa þurft að þola allt of lengi að vera flokkað sem glæpamenn, það sé enginn munur á því hvort fólk drekki áfengi eða neyti kannabis.

Samkvæmt nýju lögunum hafa fullorðnir hafa heimild til að vera með 50 gramma neysluskammt í sinni vörslu heima við og 25 gramma skammt á almannafæri, auk þess sem þeir mega rækta þrjár plöntur til einkanota.

Neyslumörkin eru lægri hjá þeim sem eru 18-21 árs og neyslan verður áfram óheimil þeim sem eru yngri en 18 ára. Það má ekki hins vegar ekki reykja kannabis í grennd við skóla eða íþróttahús. Og ekki heldur á almannafæri á milli klukkan sjö að morgni fram til átta að kvöldi.

Ekki óumdeild lög

Stjórnvöld í Þýskalandi telja að með þessu færist viðskipti með kannabis af svörtum markaði og fram í dagsljósið. Þá séu minni líkur á að mengað kannabis sé í umferð.

Nýju lögin eru þó ekki óumdeild. Forstöðukona meðferðarstöðvar í Berlín býst við aukinni kannabisneyslu og segir lögin hörmung. Þá hafa þýska lögreglan og læknafélag Þýskalands varað við því að þetta skref sé stigið þar sem hætta sé á að fleiri verði háðir neyslu kannabis.

Þýskaland er þriðja ríkið í Evrópu til að lögleiða kannabisefni á eftir Möltu og Lúxemborg, en Hollendingar hafa gert tilraunir með lögleiðingu á ákveðnum svæðum.

Frétt frá ruv.is

WordPress Appliance - Powered by TurnKey Linux